Airwaves 2014: Alltaf pínulítið hafnfirsk

Airwaves 2014: Alltaf pínulítið hafnfirsk

Þeir eru margir landsmenn sem bölva og blóta þegar dagana styttir og sólin hættir að láta sjá sig. Ískaldir bílar og slydda eru t.d. ekki í uppáhaldi hjá mörgum og svo er einnig um mig. Ég þoli t.d. ekki að skafa – hvað er það??

Það er hinsvegar þrennt sem þessi tími ber með sér sem ég kætist oftast mikið yfir. Í fyrsta lagi eru það fallegar kápur, treflar, vettlingar og hlýjar og þykkar peysur.  Í öðru lagi er það afmæli, en ég er mikið afmælisbarn og einhverra hluta vegna eiga flestir sem ég þekki afmæli á haustin. Í þriðja lagi er það Icelandic Airwaves hátíðin sem hefst næstu viku og er þetta í 15. sinn sem hátíðin er haldin.
Þegar Airwaves var splunkuný og að taka sín fyrstu skref í átt til heimsfrægðar var hátíðin alltaf haldin í kringum afmælið mitt, mér til mikillar gleði. Það var þó oft erfitt að útskýra fjarveru mína í kökuboðunum fyrir gömlum frænkum og ömmu og afa en núna er hins vegar búið að seinka henni og afmælisgleði fjölskyldunnar getur farið ótruflu fram. Hátíðin, sem fer fram dagana 5. – 9. nóvember, hefur sjaldan litið betur út og Hafnfirðingar eiga svo sannarlega sinn hlut í dagskránni að þessu sinn.  Kíkjum hér á nokkur nöfn:
Vok hljomsveitÍ fyrsta lagi er það Vök. Hljómsveit sem kom, sá og sigraði Músiktilraunir 2013. Hljómsveitin byrjaði sem tveggja manna band árið 2011 þegar Margrét Rán, söngkona, og saxafónleikarinn Andri Már hófu samstarf, en svo bættist Ólafur Alexander gítarleikari við hljómsveitina sumarið 2013. Þau hafa slegið í gegn með lagið Ég bíð þín og það er virkilega spennandi að sjá hvað kemur meira frá þessari flottu hafnfirsku sveit í framtíðinni.

Hljómsveitin Halleluwah er ekki síður spennandi. Hún er þó ekki alhafnfirsk, en hún samanstendur af Rakel Mjöll, hafnfirðingi miklum og svo er það Sölvi Blöndal, kenndur við Quarashi. Sveitin var stofnuð sumarið 2013 og gaf þá út lagið Blue Velvet sem sló í gegn hjá helstu útvarpsstöðum landsins. Tónlistin þeirra hefur oft verið sögð blanda af retro söng og R&B tónlist með electrónísku ívafi.  Áfram hálfhafnfirskt!

 

ceasetoneSvo er það CeaseTone en það er listamannsnafn Hafsteins Þráinssonar gítarleikara. Hafsteinn hefur að undanförnu verið að undirbúa útgáfu sinnar fyrstu plötu og spilað víða með fleiri hljóðfæraleikurum. CeaseTone er á dagskrá á Dillon strax annað kvöld.

 

Ylja-4Síðast en ekki síst ætla ég að fjalla um dömurnar í Ylju. Þær Bjartey og Guðný Gígja voru fyrst tvær árið 2008 en hafa nú fengið fleiri tónlistarmenn til liðs við sig og Ylja orðin að 5 manna hljómsveit. Þeirra helsta einkennismerki eru raddaðir tónar og gítarspil, ásamt töfrandi lögum sem bera með sér örlítinn þjóðlagakeim. Þessi hljómsveit er gott dæmi um ,,sjón er sögu ríkari” og það er mjög auðvelt að heillast upp yfir haus af þeim þegar þær byrja að syngja og spila.
Það gleður hafnfirskt hjarta að sjá góð og skemmtileg hafnfirsk bönd á line-upi hjá Airwaves í ár og ef það er eitthvað sem við Hafnfirðingar getum verið stolt af, þá er það unga fólkið okkar og tónlistin sem það spilar.

Deila þessari færslu:

Eignaumsjon_vefur_hausverk_karl

Nýjustu fréttir

Hvað viltu finna?

Sjá allar niðurstöður