Hlaupastíllinn skiptir máli!

Hlaupastíllinn skiptir máli!

Daglega fæ ég fyrirspurnir frá íþróttamönnum eða foreldrum ungra íþróttamanna um hvernig þau geti bætt hlaupastílinn sinn og hlaupið hraðar. Í gegnum árin hef ég verið að vinna mikið við þetta, að hitta íþróttamenn (á öllum aldri) og finna veikleikana í hlaupastílnum og finna þeim verkefni við hæfi.

Ég hef oft spáð í hvað það gæti munað miklu ef allir lærðu að hlaupa rétt(ara), eða lærðu að gera grunnæfingar fyrir góðan hlaupastíl betur.  Þess vegna eru t.d. frjálsar íþróttir góður grunnur þar sem þú meðal annars lærir hlaupastílsæfingar vel og rétt.

Nú um helgina sat ég á fyrirlestrum hjá Ian Jeffreys, en hann er þekktur fyrir þjálffræði sína með áherslu á hraða- og snerpuþjálfun (gamespeed), en hann gegnir einnig stöðu yfirstyrktarþjálfara enska úrvalsdeildarliðsins Cardiff (hressandi að þeir féllu þegar hann var að messa yfir okkur).

Jeffreys talaði um að það þyrfti ómeðvitað að byrja að þjálfa unglinga að hlaupa og gera rétt hreyfimynstur sem fyrst, hann talaði um að það væri gott að byrja snemma t.d.  í kringum 10-12 ára aldur, alveg eins og við lærum tækni í íþróttagreinunum smátt og smátt þá er þetta hæfileiki sem þarf einnig að þróa. T.d. er mjög sniðugt að nota upphitunina vel til að æfa ákveðnar hreyfingar, hlaupastíl, hopp og lendingar. silja1

Hvaða atriði þarf að skoða varðandi hlaupastíl? (athugað að þessi atriði eru meira hugsuð fyrir íþróttamenn sem vilja hlaupa hratt, áherslur fyrir lengri hlaup eru aðeins öðruvísi að vissu leyti).

  •           Hvernig lendirðu á fætinum? Á tánum, táberginu eða hælunum?
  •           Hleypurðu „sitjandi“, eða s.s. brotin í mjöðmunum?
  •           Hvernig notarðu hendurnar? Krossa þær líkamann? Notarðu þær bara framm á við           eða einnig aftur á við? Eða ertu með „hamarinn“ í hendinni?
  •           Vantar styrk og liðleika í mjaðmirnar?
  •           Tekurðu of stór skref? Tekurðu of lítil skref? Teygirðu í skrefin?
  •           Hleypurðu með beinar fætur? Eða nærðu að mynda svona „að hjóla“ hreyfingu?
  •           Lyftirðu hnjánum eitthvað?
  •           Horfirðu upp? Eða niður?
  •           Vantar liðleikann í þig? Framan á ? Aftan á? Mjaðmirnar?
  •           Hallarðu fram á við? Aftur á við?

Að hlaupa er ekki sama og að hlaupa og íþróttamenn ættu að hugsa um þessi atriði. Ef íþróttamaður vill ná langt ætti hann að einbeita sér að því að ná sem mestu úr sér á öllum sviðum. Oftast veit fólk ekki hvað það gerir rangt eða af hverju, en oftast eru til augljósar skýringar á þeim og veikleikar sem auðvelt er að vinna með. Mikilvægt er að fá veikleikagreiningu og æfingar til að vinna með, þá þarf bara að æfa stílinn og hlaupa meðvitað meðan þú breytir stílnum. silja2

Ég get ekki skrifað svona hluti án þess að láta einhverjar æfingar fylgja með svo hér eru nokkra:

MJAÐMATEYGJAN  – fínt að liggja í þessari stöðu í eina mínútu hvoru megin.

VEGGJAHLAUPIР – hugsið um að ná beinni línu frá hæl og upp í höfuð, standið í tábergið, horfið áfram, og rólega lyftu hægri fætinum 10x, svo vinstri 10x. Næst tekurðu veggja- interval þar sem þú tekur fimm sett af þremur endurtekningum þar sem þú „hleypur“ eins hratt og þú getur og hvílir í 5 sek á milli.

MJAÐMARÉTTAN – liggur á bakinu, lyftir mjöðminni upp rólega með því að spyrna hælunum í jörðina. Krosslegðu hendurnar yfir bringuna. Þú vilt fá beina línu frá hné að öxlum. Gerðu 10x jafnfætis, 6-10x á hægri og á vinstri.

Byrjaðu á þessu, ef þú vilt vita eitthvað meira þá geturðu sent mér línu á siljaulfars.is@gmail.com

Gangi þér vel.

Silja Úlfars – siljaulfars.is

 

 

 

Deila þessari færslu:

Eignaumsjon_vefur_hausverk_karl

Nýjustu fréttir

Hvað viltu finna?

Sjá allar niðurstöður