„Allt sem er hafnfirskt finnst mér vera fallegt“

„Allt sem er hafnfirskt finnst mér vera fallegt“

Friðrik Dór er Gaflari vikunnar

 

Friðrik Dór Jónsson sem brátt getur kallað sig Eurovision-fara settist niður með Helgu Kristínu Gilsdóttur og fór yfir málin – lífið og tilveruna.

Það er á einum af þessu dögum sem við höldum að vorið sé komið sem ég mæli mér mót við einn heitasta gæjann í bænum, sjálfan Friðrik Dór. Við hittumst að sjálfsögðu á staðnum sem allir Hafnfirðingar hittast á, Súfistanum. Vinsældir Friðriks fara ekki fram hjá mér því um leið og við erum sest niður með kaffið koma nokkrar ungar dömur sem stilla sér upp fyrir framan okkur og stara á Friðrik með mikilli aðdáun og ef ég væri ekki bráðlega að fara að halda upp á 29 ára afmælið mitt í fjórtánda skiptið hefði ég farið í hópinn með þeim.

En fyrir þá sem ef til vill ekki vita hver Friðrik Dór Jónsson er þá er hann fæddur og uppalinn í Hafnarfirði og getur stoltur kallaði sig gaflara því hann á ættir sínar að rekja til Hafnarfjarðar bæði í föður- og móðurætt. Friðrik er með eindæmum fjölhæfur því hann hefur sent frá sér tvær plötur, Allt sem þú átt 2010 og Vélrænn 2012. Þá hefur hann starfað í sjónvarpi og ásamt því að sinna tónlistinni leggur hann stund á viðskiptafræði í Háskóla Íslands.

Æskuárunum eyddi Friðrik áhyggjulaus í Setberginu á heimili foreldra sinna þeirra Ásthildar Ragnarsdóttur og Jóns Rúnars Halldórssonar, yngstur fjögurra systkina. Hann gekk í Setbergsskóla, æfði fótbolta með FH og lærði á píanó og trommur í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar. Að grunnskóla loknum fór hann í Verslunarskóla Íslands þar sem hann tók virkan þátt í félagslífinu með þátttöku sinni í söngleikjum skólans sem og í ræðuliðinu.

Árið 2011 flutti Friðrik í Þingholtin en býr nú í Hlíðunum í Reykjavík „Ég er á leiðinni í Hafnarfjörð, það er á langtímaplaninu, og þokast í rétta átt en ég ræð þessu náttúrlega ekki einn“ segir Friðrik brosandi en hann er í sambúð með Lísu Hafliðadóttur og saman eiga þau dótturina Ásthildi sem er á öðru ári. „Þrátt fyrir að biðlistar eftir leikskóla séu langir hér er ég bara alveg blindur þegar kemur að Hafnarfirði, hér vil ég vera og hingað sæki ég alla þjónustu.“

Þegar Friðrik var lítill var hann staðráðinn í að verða fótboltamaður þegar hann yrði stór og svo ætlaði hann líka að verða bankastjóri. „Í dag er ekkert sem gæti verið meira fjarri mér en að starfa í banka, hvað þá að vera bankastjóri, en ég er nú samt í námi í viðskiptafræði svo ég er kannski á leiðinni þangað“ segir Friðrik hlæjandi og bætir svo við „ég er reyndar í viðskiptafræði með áherslu á alþjóðaviðskipti og markaðsfræði og ég hef mikinn áhuga á markaðsmálum, grafískri hönnun og jafnvel innanhússhönnun. Ég var meira að segja í smátíma í tækniteiknun í Iðnskólanum í Hafnarfirði en hætti á miðri önn þar sem tónlistarferillinn var farinn að rúlla.“

„Ég sé mest eftir af því sem er liðið er að hafa ekki reynt betur“

Og svo er það draumurinn um fótboltamanninn sem Friðrik sér svo eftir. „Ég eiginlega hætti bara í fótbolta svona án þess að vera almennilega meðvitaður um það, ég hafði æft með FH og svo var bara erfiðara að komast í æfingahópinn hjá þeim og þá fór ég að hugsa um að fara eitthvert annað og prófaði að æfa með öðru liði, þá fann ég að mig langaði bara að spila fótbolta með FH. Þannig að ég hætti eiginlega bara svo óafvitandi eða óvart og sé ennþá eftir því – eiginlega það sem ég sé mest eftir af því sem er liðið er að hafa ekki reynt betur, en það þarf ekki að skilja það sem svo að ég stefni á eitthvert „comeback“ segir Friðrik brosandi. Þá liggur beinast við að ræða við FH-inginn Friðrik enda litar liðið líf hans alla daga. Faðir hans er formaður Knattspyrnudeildarinnar, bróðir hans Jón Ragnar spilar með meistaraflokki félagsins í fótbolta og undanfarin ár hefur Friðrik verið í hlutverki vallarþular í Kaplakrika þannig að  óneitanlega eru málefni félagsins oft til umræðu þegar þeir feðgar koma saman. „Já það er rétt við ræðum FH dálítið þegar við hittumst og tökumst stundum á, enda finnst mér alltaf gaman að rökræða við pabba, en í grunninn erum við sammála og höfum sömu viðhorf til verkefnisins sem rekstur Knattspyrnudeildar FH er.“

Vildi gera allt öðruvísi en Jón

Þegar ég spyr Friðrik hvernig það sé að vera yngri bróðir Jóns Jónssonar og koma alltaf á eftir honum er Friðrik fljótur að leiðrétta mig „Ég var reyndar á undan í tónlistinni en svo kom lag frá honum og þá tók hann bara fram úr mér, allavegana tímabundið. En að fylgja í fótspor Jóns hefur eiginlega bara verið óskaplega ljúft enda skilur hann alls staðar vel við og ég naut þess sérstaklega í Versló að vera bróðir hans. Ég tók reyndar tímabil þar sem ég vildi gera allt öðruvísi en hann hafði gert og á umsókninni minni um framhaldsskóla var Flensborg í fyrsta sæti og Versló í öðru þar til Jón breytti því, því hann vissi að innst inni langaði mig í Versló. En ég var ræðuliði skólans, Jón var það ekki. Hins vegar hefur okkur alltaf komið vel saman en við slógumst alveg þegar við vorum yngri, líklegast eins og flestir bræður og þetta er meira samstarf en samkeppni okkar á milli“

Tryllt að gera, það er gaman

Friðrik segist ekki vera með nein skýr markmið varðandi tónlistarferil sinn. „Þetta er eiginlega bara þannig að þú tekur því sem höndum ber og reynir að gera sem mest úr því sem þú hefur hverju sinni. Ég er ekki með nein markmið um það að koma ákveðið mörgum lögum á vinsældarlista á x löngum tíma. En í augnablikinu er tryllt að gera hjá mér og það er gaman. Ég sé mig hins vegar ekki fyrir mér að spila á skemmtistöðum þegar ég verð orðinn gamall karl.“ Og þá er ekki úr vegi að spyrja hvernig gangi að samræma fjölskyldulífið við svona óreglulegan vinnutíma sem tónlistarbransinn vissulega felur í sér? „Það gengur bara vel, oftast, ég hef mikinn tíma með dóttur minni en stundum hitti ég Lísu kærustuna mína lítið þar sem við erum bara á sitthvorum tímanum, ég að fara þegar hún er að koma og öfugt. En hún er dugleg að koma mér á óvart með allskonar skemmtilegheitum og ég mætti sannarlega bæta mig í þeim efnum. En þetta er bara eins og hver önnur vinna sem borgar reikningana okkar.“

Heillar það ekkert að ílengjast á böllum sem þú spilar á? „Nei, það heillar alls ekki. Þegar ég fer að skemmta mér er það oftast með vinum mínum. Ég á marga góða vini bæði síðan úr Setbergsskóla, við erum nokkrir sem höfum haldið hópinn þaðan, og svo er enn stærri vinahópur úr Versló. Þannig að þegar ég ætla að skemmta mér þá er það ekki endilega á skemmtistað niður í bæ heldur frekar í heimahúsi í góðra vina hópi.“

 

„Allt sem er hafnfirskt finnst mér vera fallegt.“

Það er margt og mikið framundan hjá Friðriki og fyrst ber að nefna hafnfirsku tónlistarhátíðina Heima sem er í kvöld. „Mér finnst þetta mjög spennandi, við spilum í tveimur heimahúsum og með okkur verður táknmálstúlkur sem túlkar textana. Það er nýtt, en ég hitti þessa stelpu sem ætlar að túlka fyrir okkur þegar ég var að spila í skóla um daginn. Það er líka margt gott að gerast í hafnfirsku tónlistarlífi og allt sem er hafnfirskt finnst mér vera fallegt.“

Og að því loknu er svo komið að hápunkti í íslensku tónlistarlífi að margra mati, þátttöku Íslands í Eurovision. Þar verður Friðrik á meðal keppenda, í bakröddum. „Ég er mjög tapsár að eðlisfari en ég upplifði þetta ekki sem tap að lenda í öðru sæti hér heima enda var ég búinn að vinna ákveðna persónulega sigra áður en til úrslitakvöldsins kom. Og svo kemur náttúrulega alltaf upp sú spurning hvort hægt sé að keppa í tónlist? En ég er allavegana hæstánægður að vera að fara til Vínar enda hafa margir sagt mér að þar sé fallegt“ segir Friðrik brosandi og heldur áfram „ég held að það sé mikið ævintýri í uppsiglingu og ég efast ekkert um að þetta á eftir að verða lærdómsríkt, ekki síst að vinna í svona stórum hóp en ég hef ekki verið í hljómsveit síðan ég var þrettán. Ekki skemmir fyrir að þarna kemst ég í kynni við Eurovision-reynsluboltann Heru Björk, sem verður í bakröddum með mér, og hún verður væntanlega fyrirliði og vítaskytta í þessari ferð enda hokin af reynslu þegar kemur að Eurovision.“

 

 

 

Deila þessari færslu:

Eignaumsjon_vefur_hausverk_karl

Nýjustu fréttir

Hvað viltu finna?

Sjá allar niðurstöður