Brettafélagið í Hafnarfirði með einu innanhússaðstöðuna á höfuðborgarsvæðinu

Brettafélagið í Hafnarfirði með einu innanhússaðstöðuna á höfuðborgarsvæðinu

Markmiðið að gera Brettafélagið að fullgildu íþróttafélagi

Fimmtudaginn 12. febrúar s. l. fór fram opnunarteiti Brettafélags Hafnarfjarðar í húsnæði félagsins að Flatahrauni 14. Þar var Hafnfirðingum og iðkendum boðið að skoða aðstöðuna. Opnun slíkrar aðstöðu hefur mikla þýðingu fyrir hjólabretta- og BMX-fólk í Hafnarfirði, og almennt, því þetta er eina innanhúss aðstaðan á höfuðborgarsvæðinu. Hafnarfjörður má því vera stoltur af nýrri og glæsilegri aðstöðu. Húsnæði sem þetta skiptir höfuðmáli fyrir iðkendur, sérstaklega yfir vetrartímann. Á sumrin er auðveldara að stunda íþróttina utandyra en eins og veðráttan er á Íslandi er nánast ómögulega að stunda hana á veturna, nema þá innanhúss. Það eru allir velkomnir í húsið og hver sem er getur nýtt sér aðstöðuna, ekkert aldurstakmark er og ekki einu sinni skilyrði að vera Hafnfirðingur.

brettastrakar-4575-v2NetMarkmið Brettafélagsins er að gera félagið að fullgildu íþróttafélagi þar sem skipulagðar æfingar fara fram og hefja íþróttina upp á hærra plan. Von Brettafélagsins er sú að á komandi árum geti börn á grunnskólaaldri nýtt sér tómstundastyrki sveitarfélaganna til niðurgreiðslu á æfingagjöldum eins og tíðkast í hefðbundnu íþróttastarfi. Hjólabrettaiðkendur hafa því miður oft og tíðum verið litnir hornauga í samfélaginu og tengja margir menningu þeirra við óreglu og skemmdarverk. Með því að bjóða upp á góða aðstöðu undir eftirliti starfsmanns og búa svo um að foreldrar geti tekið virkari þátt í iðkun barna sinna má vonandi breyta því viðhorfi. Litið er á húsnæði félagsins sem íþróttahús og því ber iðkendum að umgangast það með sama hætti og önnur íþróttahús. Hjálmaskylda verður í húsinu og notkun tóbaks með öllu óheimil. Í húsnæðinu hefur verið opnuð verslun í samstarfi við verslunina Mohawks, einnig verður hægt að kaupa sér holla drykki og hægt að grilla samlokur í nestisaðstöðunni. Brettafélagið ætlar svo reglulega að vera með viðburði þar sem iðkendur geta spreytt sig undir dynjandi tónlist við mikið stuð.

Án aðkomu Hafnarfjarðarbæjar og annarra styrktaraðila hefði þessi draumur ekki orðið að veruleika. Bærinn leggur félaginu til húsnæði og fjármuni til uppbyggingar. Til að standa undir daglegum rekstri, s. s. viðhaldi á aðstöðu og starfsmanni, er því miður ekki hægt að bjóða upp á frían aðgang, en enn og aftur ítrekað að allir eru velkomnir. Allir sem koma í húsið til að stunda hjólabretti eða bmx eru hvattir til að skrá sig í félagið, en það er einnig hægt á heimasíðu félagsins, brettafelag.is/skraning-felagid.

Deila þessari færslu:

Auglýsing / MLH

Nýjustu fréttir

Hvað viltu finna?

Sjá allar niðurstöður