Ég vil heyra allar raddir

Ég vil heyra allar raddir

_MG_4165

Nú eru sex mánuðir liðnir frá því að útlegð fjölskyldunnar hófst og óhætt er að segja að lífið sé komið í nokkuð fastar skorður hér í Berlín. Allir una við sitt og eins og ég sagði fyrr í vetur þá eru okkur allir vegir færir – eða svona næstum því. Ennþá finnur maður fyrir vanmætti sínum gagnvart tungumálinu, hinni tungubrjótandi þýsku, sem við öll erum að ströggla við að mastera.

Það er nefnilega ekkert grín að geta ekki tjáð sig almennilega. Að geta ekki viðrað skoðanir sínar, verið fyndin eða reið. Eða þurfa að tala í fyrirfram æfðum setningum sem yfirleitt innihalda eins einfalda setningagerð og lítinn orðaforða og hægt er að komast upp með. Tala svolítið svona eins og lítið barn. Ég upplifði þetta mjög sterkt þegar nýja rauða hjólinu mínu var stolið um daginn. Á einu sekúndubroti breyttist ég í síð-20. aldar íslenskan togarasjómann og blótið og ragnið frussaðist út úr mér. Svipaðar tilfinningar bærast um í brjósti mér, knattspyrnuáhugamannsins, annan hvern laugardag þegar hverfið mitt fer á hvolf vegna óláta fótboltabullna en þá á hverfisliðið, Dynamo Berlin, yfirleitt heimaleiki og fjandinn verður laus. Í aðstæðum sem þessum er nákvæmlega ekkert sem ég get sagt, ég þori ekki einu sinni að beita augnráðinu alræmda svo óhugnarlegir eru sumir áhangendurnir. Og því miður helst útlendingahatur oft í hendur og yrði því skrattanum svo sannarlega skemmt ef ég færi að babbla eitthvað á minni barnaþýsku. Þannig að ég þegi.

Svo kom Je suis Charlie og allt varð breytt. Að huga vel að þeirri stoð sem tjáningarfrelsið er lýðræðinu hefur aldrei verið mikilvægara, að virða það og vanda. Þar gegna fjölmiðlar, stórir sem smáir líkt og Gaflarinn, lykilhlutverki svo að allar raddir fái að hljóma. Allir eiga að njóta þessa réttar, að geta tjáð það sem liggur þeim á hjarta. Og þá er ekki síður mikilvægt að einhver hlusti. Að við flokkum ekki úr, heldur veitum öllum athygli. Tökum svo slaginn í framhaldinu og ræðum, leiðréttum misfærslur, vísum í fræðin og veitum ráð. Allsstaðar heyrast nefnilega raddir og ef við tökum ekki mark á þeim þá er einfaldlega voðinn vís.

Deila þessari færslu:

Auglýsing / MLH

Nýjustu fréttir

Hvað viltu finna?

Sjá allar niðurstöður