Fílefldust við höfnun

Fílefldust við höfnun

Langaði til að skapa eitthvað saman

10939549_10153025848662863_1744430078_o_NET

Í stað þess að láta höfnun frá Leiklistarskólanum í fyrra keyra sig í kaf ákváðu sex konbörn að bretta upp ermar og taka málin í sínar hendur. Nú ári síðar standa þær á sviði kvöld eftir kvöld og leika í sínu eigin stykki; Konubörnum sem sýnt er í Gaflaraleikhúsinu. Viðtökurnar hafa eflaust farið fram úr björtustu vonum og gagnrýnendur hafa hlaðið verkið og leikinn lofi.

Þeir fiska sem róa segir máltækið og það á svo sannarlega við um þær stöllur í Konubönum. Þær sýna fyrir fullu húsi sýningu eftir sýningu og það sem meira er stóri draumurinn um að komast inn í Leiklistarskólann hefur ræst hjá fjórum þeirra. Þórey Birgisdóttir, ein konubarnanna og dansari, steig sín fyrstu spor í Hafnarfirði – og lagði þar með grunnin að ferlinum sem nú er að taka á sig mynd. Hún er á leið í Leiklistarskólann og á eflaust eftir að leika og dansa sig inn í hjörtu landans á komandi árum.

Þórey segir að, segir að þær stöllur hafi langað til að skapa eitthvað saman og þannig urðu Konubörnin til.  „Við ákváðum að hittast í kaffi. Ég var með harðsperrur í maganum daginn eftir þennann fyrsta fundinn okkar, það var mikið hlegið. En á þessum fundi hafði ég ekki hugmynd hvert þetta myndi leiða okkur,“ segir Þórey þegar hún rifjar upp hvernig ævintýrið hófst og þær stöllur réðust ekki á garðinn þar sem hann var lægstur heldur ákváðu að skrifa sitt eigið leikrit. „Að skrifa handritið var alls ekki auðvelt. Við ákváðum að fara saman upp í sveit með það markmið að henda í eitt stykki handrit.

Það tók sex klukkutíma að keyra á áfangastaðinn,“ segir Þórey og bætir við: „Við ætluðum að nýta tímann vel og hefja skriftir í bílnum það varð hins vegar lítið úr því þar sem þessir sex klukkutímar fóru í það að reyna að finna nafn á hópinn sem við fundum svo ekki.“

Handritið var til út frá sex stelpum að spjalla saman

Þórey segir að andinn hafi ekki alltaf verið yfir þeim stöllum. „Þegar við sögðum:  „Jæja nú skrifum við“ þá kom ekkert. Það sem virkaði var að spjalla saman. Við þekktumst misvel á þessum tímapunkti en kynntumst betur þarna í sveitinni eftir að hafa deilt mismunandi reynslusögum. Það kom mér á óvart hvað við gátum talað endalaust. Handritið varð til út frá sex stelpum að spjalla um lífið og tilveruna.“

Leiðin lá svo í Gaflaraleikhúsið þar sem Björk Jakobsdóttir tók vel á móti þeim og leikstýrði hópnum. „Hún var dugleg að hvetja okkur áfram og æfingatímabilið gekk mjög vel. Við erum rosa þakklátar fyrir að Björk og leikhúsið hafði mikla trú á okkur. Þau vissu í rauninni ekkert hvort við gætum skrifað eða leikið en ákváðu að gefa okkur tækifæri.”

Með fiðrildi í maganum

Þórey segir að það séu alltaf fiðrildi í maganum fyrir hverja sýningu þrátt fyrir velgengni og góða dóma. „Þetta er svo mikið barnið okkar. Okkur þykir svo vænt um þessa sýningu og við viljum auðvitað standa okkur vel.“ Hún segir að það sé gaman að fylgjast með salnum og að stemningin sé ekki alltaf eins. „Við fáum hlátur á mismunandi stöðum og þurfum að passa okkur á að hlusta vel á salinn og gefa áhorfendum tækifæri á að hlæja á ólíkum stöðum. Það var vissulega mikil breyting að fá fullan sal af áhorfendum eftir að hafa bara verið með einn áhorfanda út í sal á æfingum, Björk leikstjóra.“

Konubörnin hafa fengið frábærar móttökur og góða dóma fyrir frammistöðu sína á sviðinu. „Fólk virðist tengja vel við það sem við erum að segja. Ég vissi að við værum með gott efni í höndunum og hafði mikla trú á sýningunni. Ég á ennþá erfitt með að halda andliti í sumum senum og þarf að berjast við að fara ekki að hlæja. En þó að okkur hafi fundist við rosalega fyndnar og sniðugar þá var ekki samasemmerki um að slíkt hið sama gilti um aðra.“

Komnar til að vera

Þórey segir að leikritið Konubörn fjalli um konubörn. „Við erum Konubörn. Við tölum mikið, erum tilfinningaverur og eigum það til að ofhugsa hlutina og hvað með það. Um þetta skrifum við og gerum dálítið grín að okkur í leiðinni.“

Og konubörnin eru komin til að vera. „Við ætlum að taka eitt skref í einu og sjá hvert þetta leiðir okkur – en Konubörn eru allavega komnar til að vera segir Þórey og bætir við: Við erum allar rosalega ólíkar týpur en náum mjög vel saman. Við höfum eytt miklum tíma saman þar sem það tók nokkra mánuði að líma þessa sýningu saman. Ég hefði ekki getað hugsað mér betri hóp –  Kveðja fröken væmin  – en þetta er bara sannleikurinn.“

 

Deila þessari færslu:

Auglýsing / MLH

Nýjustu fréttir

Hvað viltu finna?

Sjá allar niðurstöður