Flensborg tekur upp þriggja ára kerfi

Flensborg tekur upp þriggja ára kerfi

 

Nýverið mátti lesa á vef Flensborgarskólans þessa fyrirsögn: Nýjar stúdentsbrautir frá hausti 2015 og með því er gert ráð fyrir að nemandi, sem kemur vel undirbúinn úr grunnskóla, geti lokið námi til stúdentsprófs á þremur árum. Svigrúm er þó áfram til staðar til ljúka á lengri og jafnvel styttri tíma. Þau Hildur Einarsdóttir og Þorbjörn Rúnarsson mynda stýrihóp skólans um nýja námskrá. Gaflarinn ákvað að taka þau tali.

Hvað er nýtt við þetta þriggja ára kerfi?

„Það er góð spurning“, segir Hildur. „Áfangakerfið er sveigjanlegt kerfi í eðli sínu. Við höfum útskrifað nemendur eftir allt frá tveggja og hálfs árs námi og uppúr. Stór hluti nemenda okkar ljúka námi á þremur, og þremur og hálfu ári. Hins vegar miðar það kerfi við fögurra ára nám. Nýju brautirnar okkar eru hugsaðar sem þriggja ára brautir. Það verður spennandi að sjá hvernig reynslan verður af þeim.“

Þorbjörn bætir við að námsbrautirnar verði fimm í stað fjögurra og þó þær virðist keimlíkar þá bjóði þær allt aðra möguleika en áður var. „Það er skilgreindur kjarni sem allir taka á hverri braut en síðan velja nemendur úr séráföngum hverrar brautar. Þar verða íþm tvöfalt fleiri áfangar í boði en þarf að velja og þess vegna hafi nemendur gott svigrúm til að velja sér þá samsetningu sem háskólar heima og erlendis gera kröfur um.“

Ein helsta nýjungin er hin svokallaða opna braut, þar sem nemendur geta raðað saman námi úr öllum áföngum skólans og eru ekki bundin séráföngum ákveðinnar brautar. Þannig geta þeir undirbúið sig t.d. fyrir þverfaglegt háskólanám. „Núna hafa háskólar sett fram námskröfur með mun markvissari hætti og því auðveldara að leiðbeina nemendum, auk þess sem þau ættu að geta kafað dýpra i færri greinar. Við leggjum áherslu á dýptina í náminu,“ segir Þorbjörn.

En hvað með Íþróttaafrekssvið skólans, sem er það stærsta á landinu. Breytir þetta því ekki?

Hildur segir það ekki vera. „Það verður vitaskuld áfram, enda hefur samstarfið við íþróttafélögin verið uppbyggilegt fyrir báða aðila. En við aðlögum það að nýju kerfi og bætum svo við listnámssviði í samstarfi við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar. Það er spennandi valkostur. Einnig höldum við áfram með öflugt starf kórsins og samstarfi við Gaflaraleikhúsið. Við bjuggum jafnframt til félagslífssvið þar sem nemendur geta fengið metið framlag sitt til félagsmála hér í skólanum en erum líka að skoða að meta sjálfboðastarf á ýmsum sviðum. Þetta er mjög spennandi. Við erum sannfærð um að samstarf af þessum toga, auk til dæmis þess samstarfs sem við höfum byggt upp með grunnskólunum og kallast Bæjarbrúin, bætir ekki bara stöðuna hér heldur gagnvart öllum nemendum úr Hafnarfirði sem hingað koma. Við viljum vinna með þessum aðilum hér í bænum.“

Hvað með starfsbraut fyrir fatlaða?

„Jú, hún heldur áfram og er í stöðugri mótun,“ segir Hildur.

En framhaldsskólabrautin sem lögð var niður 2013?

„Við erum að þróa slíkt námsframboð,“ segir Þorbjörn, „ og köllum það undirbúningsnám. Nemendur koma til með að geta lokið framhaldsskólabraut eða fært sig yfir á stúdentsbrautir ef hugur þeirra stefnir þangað. Undirbúningsnámið er líka fyrir nemendur sem eru að undirbúa sig undir verkgreinanám og starfsnám. Þeir geta lokið bóklegum hluta starfsnáms og halda því næst í verknámsskóla.“

Það er sem sé nóg að gerast? spyr blaðamaður.

Hildur svarar að bragði: „Í Flensborg? Það er allt að gerast! Við erum rétt að byrja!“

 

Deila þessari færslu:

Auglýsing / MLH

Nýjustu fréttir

Hvað viltu finna?

Sjá allar niðurstöður