Heima í annað sinn

Heima í annað sinn

Dásamlega skemmtileg tónlistarhátíð

Tónlistarhátíðin HEIMA verður haldin í annað sinn, síðasta vetrardag, og markar upphaf Bjartra daga í Hafnarfirði. „Markmiðið er að kveðja þennan grimma vetur, fagna komandi sumri, hafa gaman af lífinu, njóta samvista og heimsækja hvert annað,“ segir Kristinn Sæmundsson, einn skipuleggjandanna.

Á HEIMA spila 13 hljómsveitir/listamenn í 13 HEIMA-húsum í miðbæ Hafnarfjarðar. Hver konsert er u.þ.b. 40 mínútur og hver hljómsveit spilar tvisvar, í sínu húsinu í hvort sinn.

Guðlaug Kristjánsdóttir, bæjarfulltrúi, er einn þeirra Hafnfirðinga sem bjóða heim í stofu til sín. „Ég sá fyrstu hátíðina auglýsta og fannst þetta frábær hugmynd. Ég gladdist mjög þegar ég sá síðan auglýst eftir stofum til að hýsa tónleika, því mér fannst mjög spennandi að fá að taka þátt.“

Í fyrra hýsti Guðlaug Fjallabærður og Mono Town og það má segja að hún sé ríkari fyrir vikið. “Ég þekkti lítið til Fjallabræðra en er mikill aðdáandi núna. Mono Town, þekkti ég ekkert til en hef haft gaman af að fylgjast með síðan, nú síðast þegar þeir fengu tónlistarverðlaun.“

Gestir Guðlaugar í ár eru ekki af verri endanum og margir myndu eflaust vilja vera í hennar sporum síðasta vetrardag en hennar gestir verða Eivör Pálsdóttir og MC Gauti og Agent Fresco. „Þú hittir naglann á höfuðið með að ég verð örugglega mjög „starstruck“ þegar þessir frábæru listamenn verða komnir hér inn á gólf. Ég held mikið upp á Eivöru en þekki minna til hinna.“

Guðlaug segir að sér finnist lítið mál að opna heimili sitt fyrir ókunnu fólki. “Stemningin í fyrra var mjög glöð og hlýleg, virkilega heimilisleg. Fólk var almennt mjög ánægt. Það skapaðist líka svo mikil nánd milli flytjenda og njótenda sem býr til einhvern alveg einstakan galdur.“

Guðlaug segir að það sé bara einn galli við að opna heimili sitt. “Maður fer þá síður á milli yfir í hin húsin. Ég held að það hljóti að vera einstök upplifun að þræða milli heimila og reyna að komast yfir sem mest af dagskránni. Ég á þá upplifun þá bara eftir.“

 

 

 

 

 

 

Deila þessari færslu:

Auglýsing / MLH

Nýjustu fréttir

Hvað viltu finna?

Sjá allar niðurstöður