Lífið svo miklu auðveldara ef maður er jákvæður

Lífið svo miklu auðveldara ef maður er jákvæður

Gaflarinn kíkir í kaffi til Deliu Kristínar Howser, starfsmanns Arion banka. Delia er Hafnfirðingur í húð og hár en á ættir að rekja til Reykjavíkur, Vestfjarða og til Tennessee í Bandaríkjunum. Hún er mikill tónlistarunnandi enda var mikið hlustað á klassík, kántrí, swing, djass og blús á æskuheimilinu. Delia er mikill dýravinur og bæjarbúar sjá gjarnan þennan kraftmikla hundaeiganda á gangi um bæinn með Labrador hundana fimm. Skemmtilegast þykir henni að ganga í upplandi Hafnarfjarðar og við Kleifarvatn og njóta náttúrufegurðarinnar sem umlykur fallegan fjörðinn.

Fjölskylduhagir? Sjálfstæð kona, þrjú frábær börn, fimm hundar og tveir kettir. Mamma, Lilja Hjartardóttir, býr stutt frá okkur og er stór hluti af daglegu lífi okkar krakkanna

Hvað kemur þér af stað á morgnana?  Vekjaraklukkan og labbarnir mínir. Þegar klukkan hringir þá spretta þeir allir á fætur og því er ekkert í boði að kúra neitt lengur

Uppáhalds tónlistin? Nánast alæta á tónlist. Er reyndar að vinna í því þessa dagana að líka betur við rapp þar sem miðjan mín er meðlimur í Reykjavíkurdætrum

Gamli skólinn minn? Öldutúnsskóli – á ljúfar minningar frá grunnskólaárunum, kennarar eins og Ellert Borgar, Guðmundur Sveins og Þórir Jóns höfðu mikil áhrif og mótuðu mann. Margir af mínum bestu vinum eru einmitt skólafélagar mínir frá þessum tíma og fyrir liggur að hittast í vor því við eigum 35 ára útskriftarafmæli

Hver er fyrsta endurminningin? Sennilega þegar Lady, tíkin sem ég ólst upp með, átti hvolpana sína. Við komum heim og þá var hún búin að eiga hluta hópsins á neðri hæðinni, hluta á efri hæðinni í rúminu mínu og átti svo einn í stiganum

Uppáhaldsflíkin? Góðar útivistabuxur og Scarpa skórnir mínir. Einnig má nefna fínan svartan kjól sem ég keypti í Macy´s í New York árið 2007 í ógleymanlegri ferð með kærum vinkonum

Sund eða golf?  Sund. Gerði heiðarlega tilraun til að að láta mér líka vel við golf en það mistókst og því læt ég það vera

Bjór eða hvítvín? Hvítvín – Pinot Grigio eða Sauvignon Blanc verður yfirleitt fyrir valinu. Annars er kaldur bjór á heitum degi ótrúlega góður

delia-howser-06-5580Hvers vegna Hafnarfjörður? Fallegasti bær á landinu og þar slær hjartað. Margt má samt bæta, en ég fagna innilega fyrirhuguðu hundagerði. Félagslegi þátturinn verður aldrei ofmetinn því þarna hittist fólk, hundarnir fá frábæra umhverfisþjálfun og þeir sem ekki hafa möguleikann á því að eiga hund en alltaf langað, geta kíkt við. Og ég vil gjarnan sjá fleiri en eitt hundagerði í framtíðinni

Helstu áhugamál?  Útivist, ferðalög – bæði innanlands og utan, leikhús, kvikmyndir, lestur og samvera með vinum og fjölskyldu

Uppáhalds hreyfingin? Göngur, bæði á fjöllum og sléttlendi, sund og hjólreiðar. Forðast hins vegar líkamsræktarstöðvar eins og pestina – hef eytt aðeins of mörgum krónum í aðgangskort sem voru lítið notuð!

Helstu verkefnin framundan? Halda áfram að byggja mig upp eftir stóra aðgerð sem ég fór í síðastliðinn október og þar koma hundarnir sterkir inn í að draga mig áfram í göngutúra.  Síðan liggur fyrir að ég verð fimmtug á árinu og þarf ég því að leggjast undir feld og ákveða hvernig ég ætla að fagna þessum merkilega áfanga

Skondin saga úr vinnunni? Flestar skemmtisögur úr vinnunni myndu falla undir bankaleynd en þessi sleppur þó. Fyrir um 15 árum þá var ég að vinna með einni af mínum bestu vinkonum. Hún sat við skrifborð á móti mér og hafði átt í tölvupóstsamskiptum við nýjan yfirmann bókhalds varðandi verklag.  Sú var nú ekki alveg sammála og rýkur að starfsstöðinni okkar og byrjar að lesa yfir hausamótunum á mér, haldandi að ég væri vinkona mín. Ég varð svo gjörsamlega kjaftstopp að ég kom ekki upp stunu! Vinkona mín sat hins vegar beint á móti mér algjörlega að kafna úr hlátri

Skemmtilegasta húsverkið? Að ganga frá ryksugunni

Hvað gefur lífinu gildi? Að fylgjast með börnunum mínum og hversu vel þau eru að standa sig í lífinu. Þau eru ótrúlega dugleg öll þrjú, Lilja Guðrún, Vigdís Ósk og Tómas Geir, og ég er endalaust stolt af þessum grjónum mínum

Síðasta sms-ið og frá hverjum? „Læt þig vita eftir smá“ svar frá Tómasi Geir um það hvort hann yrði í kvöldmat

Á laugardagskvöldið var ég: Nýkomin heim frá Cape Town og naut þess að slaka á í sófanum heima eftir langt ferðalag.

Ég mæli með: Að fólk sýni meiri samkennd og hætti að setja sig stöðugt í dómarasæti. Maður verður oft dapur þegar maður fellur í þann pytt að lesa athugasemdakerfi fjölmiðla, hversu orðljótt og illt fólk getur verið. Ég kýs frekar að hlýða á og taka þátt í jákvæðri og uppbyggilegri  umfjöllun heldur en stöðugu niðurrifi og fortíðarþrasi.  Lífið verður svo mikið auðveldara ef maður er jákvæður.  Svo mæli ég að sjálfsögðu með að fólk fái sér gæludýr. Bætir mann og þroskar að umgangast þessa félaga og gerir lífið betra. Jú og gefa stefnuljós í hringtorgum. Sjá skondna sögu úr vinnunni á gaflari.is

Deila þessari færslu:

Eignaumsjon_vefur_hausverk_karl

Nýjustu fréttir

Hvað viltu finna?

Sjá allar niðurstöður