Mættur fullur eldmóðs í Fjörðinn

Mættur fullur eldmóðs í Fjörðinn

Hætti ekki fyrr en ég sé árangur

Bergur Þorri Benjamínsson datt í gegnum þak á íþróttahöllinni á Akureyri aðeins tvítugur að aldri. Þar með fuku allir draumar um flugmennsku út um veður og vind. Við tók nýtt líf ungs Eyfirðings í hjólastól. Bergur Þorri lét ekki deigan síga, kom sér í gegnum háskólanám við Háskólann á Akureyri og er nú fluttur í Fjörðinn. Hann er að elta ástina sína, Helgu, hingað suður.

Féll í gegnum þak á steinsteypt gólf

Bergur Þorri Benjamínsson, fæddist á Akureyri fyrir þrjátíu og sex árum síðan. Hann er sannur Eyfirðingur, sonur Huldu Magneu Jóndóttur, kennara við Hrafnagilsskóla og Benjamíns Baldurssonar kúabónda , og bjó á Ytri Tjörnum í Eyjafjarðarsveit til 20 ára aldurs. „Eins og gefur að skilja var nóg að gera í sveitinni þegar maður var ungur en þegar ég var 20 ára ákvað ég að fara í byggingarvinnu enda var ég þá kominn með annan fótinn á Akureyri.  Sú ákvörðun átti því miður eftir að hafa afleiðingar,“ segir Bergur Þorri þegar ég spyr hann um unglingsárin fyrir norðan. „Ég átti hefðbundna æsku, frjáls á æskustöðvunum, gekk í  Verkmenntaskólann á Akureyri og var þar á náttúrufræðibraut eins og allir félagarnir.“

bergur-thorri-02-5624Þú lendir ungur í skelfilegu vinnuslysi. Geturðu rifjað þetta upp fyrir lesendum og hvaða afleiðingar það hafði fyrir þig? Dagurinn er 27. júlí 1999, mér var skutlað í vinnuna, það var nokkuð gott veður. Ég fór að vinna í nýju verki, að rífa þak húss sem var þá Íþróttaskemman á Akureyri, en rétt fyrir kl 10, að mig minnir, var ég dottinn í gegnum þak sömu byggingar og lá við hliðina á stiga sem ég hafði dottið á,“ segir Bergur Þorri. Fallið var hátt og Bergur Þorri lenti á bakinu, tólfti brjóskliður brotnaði í mél og sá ellefti hliðraðist og skaddaðist mænan það mikið að Bergur Þorri er með hreina lömun frá mitti og niður. Bergur Þorri ræðir í dag um slysið af bæði yfirvegun og æðruleysi en fyrstu árin eftir slysið einkenndust af reiði og vanmætti.

Maður verður alltaf að halda áfram

Fimmtán eru liðin frá því að Bergur Þorri féll í gegnum þak Íþróttaskemmunnar.  Hvað skyldi hafa hjálpað Bergi Þorra mest að vinna úr þessu áfalli? „Ég var þarna í mjög góðum tengslum við fjölskyldu og vini, sem skipti alveg gríðarlega miklu máli. Það hjálpaði mér þó mest að sjá aðra í svipaðri stöðu. Ég man alltaf eftir því að fyrst kom strákur frá Vík í Mýrdal og ræddi við mig og þá svona lyftist á mér brúnin. Síðan kom Jóhann Rúnar í Keflavík í heimsókn til mín. Hann mætti á sínum Galant sportbíl,  skellti hjólastólnum inn í bílinn sinn og rauk af stað, fumlaust og án vandræða. Þá sá ég að þetta var alveg hægt. Ég hef líka oft sagt þetta við aðra, að festa sig ekki inn í sjálfum sér. Maður verður alltaf að halda áfram. Ég veit að þetta hljómar klisjukennt en þannig er þetta bara. Eftir að ég jafnaði mig á mínu slysi þá tók ég mér langan tíma í að koma sjálfum mér í gegnum háskóla. Ég prófaði fyrst tölvunarfræði en kláraði að lokum viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri og seinna kennsluréttindi á meistarastigi líka.“

Þegar þú horfir tilbaka, er eitthvað sem hefði mátt huga betur að í bataferlinu? „Þetta er erfið spurning. Þetta var svo mikið átak. Þá var margt ekki komið til sögunnar, s.s. betri og öruggari bílar í ferðaþjónustunni (þeir komu samt á réttum tíma!), betri hjálpartæki, möguleiki á íbúð í endurhæfingunni o.s.frv. Samt eru mjög margir, sem lenda í svona löguðu í dag, sem ná einfaldlega ekki að fóta sig í lífinu. Það vantar líka fleiri hlutastörf en fyrst og fremst að allir hugsi út í það að fatlaðir eiga  venjulegt fjölskyldulíf eins og allir aðrir, með öllu sem því fylgir!

Allir eiga að hafa val

bergur-thorri-5635Í dag ertu varaformaður Sjálfsbjargar og talsmaður samtakanna. Hvað kallaði þig til þeirra verka? „Óbilandi réttlætiskennd! Ég held að allir í kringum mig hafi prentað þessa réttlætiskennd í mig. Foreldrar mínir, bræður, afar og ömmur, að ég tali ekki um alla þá sem komu í heimsókn t.d á kontórinn hjá Baldri afa, þar sem heimsmálin voru rædd í botn,“ segir Bergur Þorri og það er alveg ljóst að stundirnar á kontórnum eru honum kærar. „Ég ber líka þá pólitísku kennd í brjósti að allir eigi að hafa val, hvar sem þeir standa. Ég spyr mig líka oft af hverju ég ætti að þurfa að neita mér um að sjá eða upplifa allt það sem aðrir njóta, hvort sem það er leiksýning, bílasýning, fjölskylduviðburðir í óaðgengilegu húsnæði, aðgangur að hinum ýmsu fyrirtækjum – ég neita að taka þátt í slíkum veruleika.“

Bergur Þorri flutti í Hafnarfjörð fyrir tveimur árum. Hann elti ástina, hafði eignaðist kærustu, Helgu Magnúsdóttur, sem í dag er unnusta hans og Helga bjó í Firðinum fagra. Helga er menningarfulltrúi ameríska sendiráðsins á Íslandi og samtals eiga þau fjögur börn úr fyrri samböndum. Bergur Þorri vill búa með fjölskyldu sinni í bæjarfélagi þar sem boðleiðir eru stuttar og þjónusta við fyrstu hendi.  „Ég vinn reyndar í 105 Reykjavík, en þegar maður er kominn heim þá er stutt í alla þjónustu, hvort sem það er klipping, blómabúð, eða hvað eina. Bæjarfélagið stendur sig ágætlega að þjónusta mig og mína, þó auðvitað megi gera betur.“

Lyftu í Ásvallalaug fyrir 2020!

Bergur Þorri getur auðveldlega bent á ýmislegt sem bæta mætti fara. Það fyrsta sem kemur upp í hugann er ferðaþjónusta fatlaðra og sá hildarleikur sem háður var í kringum tilfæringar á þessum málaflokki í byrjun árs. „Ég hef undanfarna mánuði verið upptekinn við að huga að þessum málum og ekki veitir af. Í raun mjög sorglegt hvernig nýrri þjónustu hér á höfuðborgarsvæðinu var ýtt úr vör nánast óundirbúið. Ég var skipaður í svokallað Notendaráð á vegum bæjarins og mér virðist sem Hafnarfjarðarbær vilji gera vel. Ég fór yfir reglurnar, augljóslega sendar frá Reykjavík, og í raun stóð ekki steinn yfir steini. Það átti að innleiða sömu takmarkanirnar hér og í Reykjavík og það gekk auðvitað ekki. Sem betur fer tók bæjarstjórnin vel í mínar hugmyndir og verið er að vinna eftir þeim í dag. En mér finnst líka grátlegt að vegna niðurskurðar hafi þurft að hætta við kaup á lyftu í Ásvallalauginni. Ég ætla vona að hún verði keypt fyrir 2020!“

Erum ekki nógu mikil sjéntílmenni

Hvað viltu sjá hér betur fara? „Því miður upplifir maður að fatlaðir séu fyrir eða þangað til eitthvað mikið bjátar á. Þá koma allir til bjargar. Við Íslendingar erum ekki nógu mikil sjentílmenni, við megum taka okkur á þar. Við erum svo mikið að flýta okkur að við höfum engan tíma til að taka eitt skref aftur á bak. Eins og þegar við mætum manneskju á hjólastól eða á hækjum í þröngu umhverfi – af hverju að reyna að smokra sér framhjá? Hugsum þetta aðeins. Það þarf líka að gera alla þjónustu einstaklingsmiðaðri. Sjálfur get ég ekki þrifið fyrir ofan axlarhæð, en það gerir heimaþjónustan ekki heldur… Hver á þá að þrífa ofan af skápum, spyr Bergur Þorri og honum fallast einfaldlega hendur.

Og baráttumálin eru svo sannarlega mörg. En líf Bergs Þorra snýst ekki eingöngu um sjálfsögð mannréttindi fatlaðra. Hann hefur einnig gaman af því að ferðast og er mikill bíladellukall. Og Bergur Þorri er hörkubílstjóri, það getur undirrituð vottað og það að þeysast um landið endilangt með aðra hönd á stýri er eitthvað sem hann setur ekki fyrir sig. „En fyrst og fremst er ég fjölskyldumaður og það toppar fátt að fara í fjölskylduferðir um okkar fagra land. Ameríka hefur líka lengi heillað mig, af öllu því sem þar er að finna s.s. bílar, tæki og fleira. Þangað langar mig til að ferðast og fara á alvöru roadtrip,“ segir Bergur Þorri og hlær. „Svo ætla ég að halda áfram að berjast fyrir bættum heimi, reyna að ræða við hvern þann sem getur lagað og breytt því sem aflaga fer í okkar ágæta landi og ég gefst ekki upp fyrr en ég sé árangur.“

 

Deila þessari færslu:

Eignaumsjon_vefur_hausverk_karl

Nýjustu fréttir

Hvað viltu finna?

Sjá allar niðurstöður