Safnað fyrir Sjónarhóli – barnaheimili í Kenía

Safnað fyrir Sjónarhóli – barnaheimili í Kenía

Tónleikar í Víðistaðakirkju á fimmtudagskvöld

Anna Þóra Baldursdóttir, 27 ára Hafnfirðingur, er þessa dagana að undirbúa opnun barnaheimilis í Naíróbí. Anna Þóra fór til Afríku í fyrsta sinn fyrir rúmu ári til að sinna munaðarlausum ungabörnum í Afríku. Hún hitti sálufélaga sinn í umönnun barna, vinkonu sína, Mariu Nyberg frá Svíþjóð, og þær sameinuðust í hugmyndum sínum um að byggja börnunum í Kenía betra líf og stofna eigið barnaheimili, Sjónarhól, eða Villekulla eins og hús Línu Langsokks heitir á sænsku. Boltinn fór að rúlla, verið er að ganga frá bráðabirgðahúsnæði fyrir barnaheimilið og Anna Þóra leggur land undir fót síðar í sumar til að taka á móti fyrstu börnunum.

Og nú ætlar litla systir Önnu Þóru, Hafdís Ósk Baldursdóttir, að halda tónleika til styrktar barnaheimilinu. „Ég fékk hugmyndina í vetur þegar ég var að velta fyrir mér fleiri leiðum til að safna fyrir heimilið. Ég var á leiðinni á kóræfingu hjá Vox Populi og þá spratt þessi hugmynd upp,“ en Hafdís Ósk hefur til fjölda ára tekið þátt í kórastarfi og meðal annars sungið með kór Flensborgarskólans.

Hafdís Ósk fór út til Kenía í vetur og kynntist aðstæðum barnanna. Hana langar til að hjálpa systur sinni við að gera líf munaðarlausu barnanna betra og sjá drauma systur sinnar rætast. „Vonandi náum við að safna nægri upphæð sem fer í uppbyggingu heimilisins, til dæmis með því að kaupa inn húsgögn eins og barnarúm, stóla og fleira. Ef vel gengur getur jafnvel einhver hluti farið í það að byrja að byggja nýtt hús fyrir heimilið, þar sem það kemur til með að byrja í leiguhúsnæði.“

Tónleikarnir fara fram í Víðistaðakirkju á fimmtudagskvöld, 28. maí, kl. 20:00. Fram koma Jónsi, Vox Populi, Hinemoa, Vokal Project, Sara Hrund og Neon. Miðaverð er kr. 2000 fyrir fullorðna, 500 kr. fyrir börn. Þeir sem ekki komast á tónleikana á fimmtudagskvöld en hafa áhuga á að styðja við bakið á Önnu Þóru og börnunum í Kenía geta lagt inn á nýstofnaðan reikning Villekulla barnaheimilisins: 537-14-407270, kt.450315-1760.

 

Deila þessari færslu:

Auglýsing / MLH

Nýjustu fréttir

Hvað viltu finna?

Sjá allar niðurstöður