Tár, bros og takkaskór

Tár, bros og takkaskór

Í upphafi nýs árs lítur maður oftar en ekki yfir farinn veg en um leið er maður farinn að huga að nýja árinu og þeim spennandi tímum sem bíða.

Ég er ekki undanskilin öðrum með það að líta yfir farinn veg og eitt af því sem stendur upp úr á síðasta ári er að ég gekk til liðs við lítinn hóp fólks sem ákvað að hleypa af stokkunum nýjum miðil í Hafnarfirði, gaflari.is. Þessum litla hópi sem hratt miðlinum af stað þótti vanta nýtt sjónarhorn af bæjarfréttunum sem fæli í sér fleiri fréttir af fólkinu í bænum og öllu því jákvæða sem hér fer fram auk þess að vera frjáls og óháður miðill.

Fyrstu vikurnar í rekstri miðilsins voru ævintýralegar enda allir meðlimir hópsins í öðrum störfum en hugmyndirnar voru háleitar og metnaðurinn mikill.  Svefn var eitthvað sem var fyrir aðra og vinkonur og vinir voru hættir að kannast við mann. Þrátt fyrir góðan undirbúning var svo ótal margt sem kom á óvart og nánast á einni nóttu þurftum við að læra svo margt, svona dæmi hristir maður nefnilega ekki bara fram úr erminni si svona – en við viljum að sjálfsögðu að það líti þannig út.

Það er skrýtið til þess að hugsa að miðillinn sé orðinn ársgamall enda er eitt ár ekki langur tími. Bæði finnst mér ég hafa verið svo lengi í þessu og ótrúlega margt gerst og svo hefur tíminn flogið á ljóshraða.  Eins og  þeir sem hafa fylgst með okkur vita þá var gaflari.is fyrst um sinn netmiðill en í lok mars var ákveðið að gefa út blað. Hópurinn gekk til liðs við prentun.is og fyrsta tölublað Gaflarans leit dagsins ljós í lok mars og síðan hafa tuttugu og tvö önnur tölublöð fylgt í kjölfarið.

Strax frá fysta degi hafa viðtökurnar verið góðar og við sem skrifum fyrir miðilinn höfum ekki verið í vandræðum með efnistök – það er frekar að við þrösum um hvað komist að hverju sinni. Viðmælendur okkar hafa tekið vel í að segja sögur sínar en án lesenda, fólksins í bænum, án ykkar  værum við hvorki fugl né fiskur.

Eins og áður sagði þá er útgáfa Gaflarans eitt af því sem stendur upp úr á liðnu ári í mínu lífi enda steig ég langt út fyrir þægindarammann með því að ganga til liðs við hópinn sem lagði af stað í þetta verkefni. Ég hef fengið tækifæri til að eiga samtöl við áhugavert og skemmtilegt fólk og miðla því til ykkar hinna sem er eitthvað sem ég hafði ekki gert áður. Heilt yfir var árið 2014 gjöfult og gott og ef ég ætti að lýsa árinu 2014 í einni setningu kæmi titillinn á bók Þorgríms Þráinssonar sterklega til greina; Tár, bros og takkaskór.

Framundan er 2015 sem ég tek fagnandi með öllum þeim sorgum og sigrum sem það kemur til með að bjóða upp á – gleðilegt ár.

Deila þessari færslu:

Auglýsing / MLH

Nýjustu fréttir

Hvað viltu finna?

Sjá allar niðurstöður