Þegar hjartað ræður för…

Þegar hjartað ræður för…

Carmen Neve er frá Gent í Belgíu sem hefur búið í Hafnarfirði í tæpt ár. Það var ekki ætlun Carmen að flytjast hingað en atvinna eiginmanns hennar réði þar um en hún er gift knattspyrnumanninum Kassim Doumbia sem leikur með FH. Carmen er gaflari vikunnar.

Carmen og Kassim kynntust árið 2010 þegar hann var nýkominn frá heimalandi sínu, Malí, til Belgíu til að leika knattspyrnu. Carmen starfaði í matvöruverslun með skóla og þar vandi Kassim komur sínar. Hann bauð henni á stefnumót sem hún var fljót að segja nei við. „Ég sá eftir því að hafa sagt nei um leið og hann labbaði út úr búðinni og hafði ekki hugmynd um að hann væri fótboltamaður en yfirmaður minn sagði mér það þegar við vorum byrjuð að hittast. Ég reyndi að milda hann með því að senda honum vinabeiðni á facebook. Hann tók sér langan tíma í að samþykkja mig sem vin en að lokum gerði hann það og við fórum að spjalla saman. Það endaði svo með því að við fórum á stefnumót og þremur vikum seinna var ég flutt inn til hans“ segir Carmen brosandi. Carmen og Kassim gengu í hjónaband í Belgíu 30. júní 2012 en þá var hún ófrísk að syni þeirra Mamady.  Carmen er einkabarn foreldra sinna en móðir hennar lést úr krabbameini skömmu eftir brúðkaupið og áður en Mamady fæddist. „Mamma gat komið í brúðkaupið okkar en var mikið veik og það var eins og hún vissi að hún myndi aldrei sjá Mamady. Hann fæddist svo þremur vikum eftir að hún dó en það var okkur mikils virði að hún gat verið með okkur þennan dag.“

carmen-01-4678_NET

 

Myndi ekki fórna fjölskyldulífi fyrir starfsframa

Þegar Carmen kynntist Kassim stundaði hún nám í ferðamálafræði og að námi loknu fékk hún starf í banka. „Ég hætti að vinna í bankanum til að fylgja Kassim hingað enda myndi ég ekki fórna fjölskyldulífi fyrir starfsframa. starf knattspyrnumannsins er ekki alltaf dans á rósum þrátt fyrir að það líti þannig út. Við vitum t.d. aldrei hvenær eða hvar næsti áfangastaður er en hins vegar færðu tækifæri til að koma til staða sem þig hafði ekki órað fyrir að þú ættir eftir að koma til. Eins og í okkar tilfelli þá vorum við ekki með það á stefnuskránni að koma til Íslands, en hér erum við og gætum ekki verið ánægðari með það. Fólkið hér er indælt og við eigum marga frábæra vini.“

Eftir að mamma dó þá hætti ég að trúa

Carmen og Kassim vekja athygli hvar sem þau koma, enda eru þau eins og svart og hvítt, ekki bara í útliti heldur er uppruni þeirra ólíkur. Carmen segir að í Belgíu séu sambönd einstaklinga af ólíkum uppruna algeng en það hafi nú ekki endilega verið ásetningur hennar að hefja samband með manni sem bæði er ólíkur henni í útliti og uppruna. „Það bara gerðist en nú vekjum við aðallega athygli vegna Mamady – fólk horfir á hann og svo á okkur“. En það er ekki bara útlitið og uppruninn sem  er ólíkur, Kassim er múslimi en Carmen ekki. Í fáfræði minni spyr ég hvort maður þurfi ekki að gerast múslimi til að giftast múslima? „ Nei, það er ekki þannig og eftir að mamma dó þá hætti ég eiginlega bara að trúa,“ segir Carmen. En hvernig gengur þá heimilislífið fyrir sig þegar annar aðilinn biðst fyrir allt að fimm sinnum á dag og hinn sem hefur misst trúna?  „Við mætumst á miðri leið, Kassim hefur gert ótrúlega margt sem múslimar gera alla jafna ekki og það sást t.d. í kringum jarðaför mömmu. Hann hjálpaði til við allan undirbúning og kom bæði í kistulagninguna og jarðaförina sem samræmist ekki endilega hans trúarsiðum. Ég steiki mér heldur ekki egg og beikon og svo hætti ég að drekka áfengi þegar við kynntumst. Hvorutveggja finnst mér bara minnsta mál. Þegar við förum í heimsókn til Malí virði ég algerlega þær reglur sem þar gilda, ég klæði mig öðruvísi og ber mikla virðingu fyrir fjölskyldu hans og hennar trúarsiðum. En ég viðurkenni það alveg að áður en ég kynntist Kassim hafði ég skrýtnar hugmyndir bæði um múslima og svart fólk. Ég vissi t.d. ekki hvort borðað væri með borðbúnaði og hélt hreinlega að ég væri bara að fara í frumskóg.“ Og það átti svo eftir að renna upp fyrir Carmen að Kassim er alin upp í stórborg, Bamakó höfuðborg Malí, en hún í smábæ. „ Í Bamakó er hins vegar mikil fátækt og alls ekki þau veraldlegu gæði sem ég átti að venjast og ég kann enn betur að meta þau eftir að ég fór til Malí.“ Carmen og Kassim giftu sig aftur í Malí 1. júní 2013, þar var haldin veisla undir berum himni að hætti múslima. „ Það var alveg stórkostlegt og ég er mjög ánægð með að hafa gert þetta enda var þetta margra daga veisla þar sem fólk söng okkur til heiðurs og margt annað skemmtilegt.“

Kurteis og spilar með hjartanu

Í ferðum sínum til Malí hefur Carmen gert sér betur grein fyrir því hversu hart Kassim hefur þurft að leggja að sér til að komast þangað sem hann er kominn þ.e. í heim atvinnumennskunnar. Hann hefur verið fjarri fjölskyldu sinni í mörg ár og alinn upp án alls þess sem henni þykja sjálfsagðir hlutir. Að hennar mati gefur það auga leið að sá sem þarf að leggja svo mikið á sig til að ná því sem okkur hinum þykir sjálfsagt gefur hjarta sitt í það.

Kassim hefur vakið athygli í íslenskum fótbolta fyrir að sýna tilfinningar sínar á vellinum. „Kassim spilar með hjartanu og hann hefur stórt hjarta, og það er hvorki af því að hann er svartur og múslimi, en á vellinum sýnir hann það en utan vallar er hann jarðbundinn, kurteis og hefur mikla réttlætiskennd. Hann er einn sá allra kurteisasti sem ég hef kynnst og amma mín spurði mig eitt sinn hvar ég hefði eiginlega fundið þennan ljúfa mann? Ég svaraði í gríni að ég hefði fundið hann í frumskógum Afríku“ segir Carmen hlæjandi og bætir við að Kassim hafi heillað foreldra hennar frá fyrstu stundu og því hafi áhyggjur af ólíkum uppruna þeirra aldrei þvælst fyrir þeim.

carmen-03-4624

Gott að vera þar sem allir þekkja alla

Carmen segir að þeim líki lífið á Íslandi vel, „ Ísland er fallegasta land sem ég hef komið til og ég var spennt að koma í snjóinn og myrkrið, en ég átti kannski ekki von á svo miklum snjó svona lengi“ segir hún brosandi. Henni finnst Íslendingar upp til hópa rólegir, lífsglaðir og afslappaðir. „Það er eins og allir hafi nægan tíma. Fólk hefur líka tekið okkur vel og FH er gott félag sem á einstaka stuðningsmenn. Stuðningsmennirnir hér eru miklu þolinmóðari  og skilningsríkari en ég á að venjast frá Belgíu. Mér finnst þeir virkilega standa með sínu liði og fara ekki af vellinum þrátt fyrir að liði spili ekki vel.“

„Hafnarfjörður minnir um margt á bæinn sem ég ólst upp í, þar þekkja allir alla og t.d. komu u.þ.b. þúsund manns í jarðaförina hennar mömmu, en afi er þekktur hárgreiðslumaður í bænum og margir sem vildu votta virðingu sína“.

 

 

 

Deila þessari færslu:

Auglýsing / MLH

Nýjustu fréttir

Hvað viltu finna?

Sjá allar niðurstöður