„Þetta eru svo langþráð börn“

„Þetta eru svo langþráð börn“

„Þegar einar dyr lokuðust opnuðust bara aðrar í staðinn og það var í rauninni mjög auðvelt fyrir okkur að taka ákvörðun um að ættleiða barn,“ segir Helga Valtýsdóttir, Gaflari vikunnar en hún og Sigurður Sveinn Antonsson, eiginmaður hennar, hafa ættleitt

Flest pör sem hafa tekið ákvörðun um að feta lífsveginn saman gera ráð fyrir því að með tíð og tíma komi börnin eitt af öðru. Hjá flestum gengur það eftir án mikillar fyrirhafnar en hjá öðrum er málið alls ekki svona einfalt.

helga-valtysdottir-6691Helga Valtýsdóttir, námsráðgjafi, og Sigurður Sveinn Antonsson, smiður, voru staðráðin í því að stofna fjölskyldu. Fljótlega eftir að þau gengu í hjónaband fóru þau að huga að barneignum. „Allt virtist ætla að ganga upp hjá okkur,“ segir Helga og hugsar sig um. Það er eins og hún sé á báðum áttum hvort hún eigi að halda áfram en svo segir hún: „Þegar ég var komin sex mánuði á leið þá missti ég fóstur. Í kjölfar þess var ljóst að ég myndi ekki geta gengið með fleiri börn.“ Helga og Sigurður voru þó staðráðin í að eignast börn þó að það yrði ekki með hefðbundnum hætti. „Við áttum í rauninni mjög auðvelt með að taka ákvörðun um að ættleiða barn. Það var búið að loka einni dyr en önnur opnaðist í staðin,“ segir Helga og brosir.  Þetta hugarfar kemur ekki á óvart því Helga er einstaklega jákvæð og hefur góða nærveru. Þar sem hún er, er oftast stutt í hlátur og glaðværð en um leið sýnir hún samferðafólki sínu mikla umhyggju og alúð. Það er því alveg ljóst að Helga átti nóg til að gefa litlu barni.

 

Vorum tekin út

Hjólin snérust hratt og stuttu eftir að ákvörðun var tekin voru þau Helga og Sigurður komin á biðlista eftir að fá að ættleiða barn frá Kína. Helga segir að undirbúningsferlið hafi tekið dálítið á. „Þeir sem vilja ættleiða börn þurfa að fara í einskonar úttekt.  Allt er þetta gert með hagsmuni barnsins í huga sem er mjög jákvætt. Barnaverndarnefnd gengur úr skugga um að fólk sé hæft til að axla þá ábyrgð að vera foreldrar. Við þurftum einnig að sýna fram á að við værum heilsuhraust og fjárhagslega í stakk búin að sjá barni farborða.“ helga-valtysdottir-6699

 

Tvöfalt lengri meðganga

Eftir tvöfalt lengri meðgöngu en gengur og gerist ef svo má að orði komast var komið að stóru stundinni. „Átján mánuðum eftir að við hófum umsóknarferlið fengum við Auði Láru í fangið,“ segir Helga og andlit hennar ljómar þegar hugurinn ferðast aftur til þeirrar stundar. „Við fengum að vita að barnið okkar væri átta mánaða gömul stúlka, tveimur mánuðum áður en við fórum að sækja hana.“  Aðspurð segir Helga að auðvitað hafi hana langað til að rjúka strax af stað til að sækja barnið. „Þannig gengur það bara ekki fyrir sig. Maður þarf bara að bíða og sýna mikla þolinmæði eins og aðrir verðandi foreldrar. Við notuðum tímann t.d. til að undirbúa heimilið okkar en ég neita því ekki að þetta voru erfiðir mánuðir en þá var gott að vita af öðrum í sömu stöðu og deila þessum tíma með þeim.“ Um leið og Helga og Sigurður fengu að vita að þeirra biði barn i Kína fengu átján aðrir foreldrar sömu gleðifréttir. „Við fórum svo öll saman að sækja tíu stúlkur.  Kínverjar gera kröfu um að kjörforeldrar kynnist landi og þjóð. Við byrjuðum því á að stoppa í nokkra daga í Peking þar sem við fórum í skoðunarferðir. Það er mikil upplifun að heimsækja Kína þar sem siðir og menning er mjög ólík því sem við eigum að venjast. Auðvitað tengjumst við svo ósjálfrátt Kína sterkum böndum enda liggja rætur barna okkar til þessa lands.“

 

Við vorum heilluð af litlu mannverunni sem við fengum í fangið

Frá Peking lá leiðin svo til Jiangxi héraðs þar sem stúlkurnar voru á barnaheimilum. „Það var mjög skrýtið að sjá rimlarúmið í hótelherberginu okkar og litla balann sem við áttum að nota til að baða dóttur okkar í,“ segir Helga og það leynir sér ekki að minningarnar eru ljóslifandi í huga hennar. „Líðan okkar þessar fáu stundir sem við biðum eftir stúlkunum tíu á hótelinu er ólýsanleg. Við upplifðum tilfinningar sem spanna allan tilfinningaskalann.“ Þegar stóra stundin rann svo upp deildu Helga og Sigurður henni með átta öðrum foreldrum. „Við biðum saman eftir fimm stúlkum. Forstöðumaður barnaheimilisins kom með þær ásamt fimm fóstrum og þá er ekki hægt að segja annað en að við hafi tekið súrrealískur tími. Við fengum barn í hendurnar sem hafði aldrei séð fólk af öðrum kynstofni,“ segir Helga og bætir við: „En allt gekk þetta mjög vel fyrir sig og þarna fengum við í fyrsta skipti tækifæri til að spyrjast fyrir um hagi og venjur dóttur okkar.“

En var nokkuð hægt að einbeita sér að praktískum atriðum á þessari stundu?

„Nei, nei alls ekki,“ svarar Helga og hlær. „Það fór allt inn um annað og út um hitt. Við vorum svo heilluð af þessari litlu mannveru sem við fengum í fangið.“

helga-valtysdottir-6713

 

Sömu sterku tilfinningarnar

Heimferðin gekk vel og Helga segir að þau hafi tekið einn dag í einu og á forsendum Auðar Láru. „Við þurftum öll að aðlagast breyttum aðstæðum og tókum okkur góðan tíma í það. Vorum mikið þrjú heima og nutum bara þessa tíma. Tilfinningatengslin á milli okkar urðu strax mjög sterk. Foreldrar sem eiga bæði kjörbörn og líffræðileg börn hafa sagt mér að þetta sé svipað ferli í hvoru tilfelli fyrir sig og tilfinningarnar þær sömu. Kjörbörn eru í flestum tilfellum mjög langþráð börn. Þannig að það er stórkostleg stund þegar maður fær þau í hendurnar.“

 

Stóra systir fór með að sækja litla bróður

Auður Lára er orðin 12 ára. Hún er augasteinn foreldra sinni ásamt Atla Fannari bróður sínum en hann bættist í hópinn fyrir rúmum þremur árum. „Okkur langaði til að eignast annað barn og ákváðum að sækja aftur um ættleiðingu. Í það skiptið þurftum við hins vegar að bíða heldur lengur eftir barninu okkar eða í sex ár. Það var alveg jafn stórkostleg stund að fá hann í fangið eins og hana Auði Láru okkar. Ég fæ bara tár í augun við að rifja þessar stundir upp,“ segir Helga og skellir upp úr.  „Við vorum ekki bara tvö sem fórum til Kína til að sækja Atla Fannar heldur þrjú því Auður Lára fór með okkur. Ég er sannfærð um að það var rétt ákvörðun að taka hana með. Hún var algjörlega tilbúin. Hún hafði mjög gaman að því að skoða upprunalandið sitt og auðvitað var hún líka spennt yfir því að eignast lítinn bróður. Hún fékk að taka þátt í þessu með okkur frá fyrsta degi og ég held að það skipti mjög miklu máli upp á tengslamyndunina. Það er mikill kærleikur á milli þeirra systkina og ég er viss um að þennan kærleik megi rekja að miklu leyti til þess að hún fór með okkur að sækja hann.“

 

 

 

Deila þessari færslu:

Eignaumsjon_vefur_hausverk_karl

Nýjustu fréttir

Hvað viltu finna?

Sjá allar niðurstöður