Til umhugsunar fyrir alla foreldra ungra barna

Til umhugsunar fyrir alla foreldra ungra barna

Eitt sinn sagði þekkt, íslensk leikkona að stærsta og mikilvægasta hlutverkið sem hún hefði tekist á við um ævina væri foreldrahlutverkið. Ég er viss um að flestir foreldrar geta tekið undir þessi orð leikkonunnar. Foreldrar óska börnum sínum alls hins besta og þar á meðal óska þeir þess að börnunum gangi vel í námi. Til þess að barni gangi vel í námi er mikilvægt að það nái sem fyrst góðum tökum á lestri. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt að það eru tveir þættir sem hafa mest forspárgildi hvað varðar lestrarfærni nemenda í 1. og 2. bekk. Þessir þættir eru bókstafaþekking og hljóðkerfisvitund. Í því felst að börn sem við skólabyrjun þekkja marga bókstafi og eru með vel þroskaða hljóðkerfisvitund eru mun líklegri til að ná góðum tökum á lestri en jafnaldrar þeirra sem þekkja fáa bókstafi og eru með slaka hljóðkerfisvitund. Barn með góða hljóðkerfisvitund gerir sér grein fyrir formi málsins. Það felur í sér að barnið kann m.a. að ríma, klappa atkvæði, hlusta eftir fyrsta og síðasta hljóði í orðum og tengja saman hljóð.

Þetta eru mikilvægar niðurstöður sem vert er að staldra við. Ekki síst vegna þess að svo virðist sem gömul hugmynd um að best sé að barn komi inn í grunnskólann með sem minnsta bókstafaþekkingu sé því miður lífseig. Hugmyndin stenst alls ekki og er í engu samræmi við það sem umræddar rannsóknir sýna okkur. Þvert á móti ættu foreldrar að halda bókstöfum að börnum sínum frá unga aldri og ýta undir áhuga þeirra á þessu sviði.

Það er gaman að leika sér með bókstafina, vita hvað þeir heita og segja, og geta jafnvel skrifað nokkra bókstafi í upphafi grunnskólagöngu. Hægt er að nálgast alls konar efni fyrir börn á leikskólaaldri þar sem unnið er með bókstafi og hljóð þeirra. Mikið er um bækur, stafakubba, spil, tölvuleiki og smáforrit þar sem lögð er áhersla á þessa þætti. Einnig er talsvert til af efni þar sem fram koma hugmyndir að leikjum og öðrum verkefnum sem styrkja hljóðkerfisvitund barna.
Margir strengja áramótaheit og setja sér markmið fyrir nýja árið sem í hönd fer. Hvernig væri að foreldrar barna á leikskólaaldri settu sér það markmið að ýta undir áhuga og þekkingu barna sinna á bókstöfum og hljóðum þeirra? Á þann hátt er verið að styrkja undirstöðuþætti lesturs og auka líkur á því að barninu muni farnast vel í lestrarnáminu.

Áhugasamir foreldrar geta nálgast ýtarlegri fræðslu og hugmyndir að viðfangsefnum inni á lesvef HÍ (http://lesvefurinn.hi.is/) og á vef Námsgagnastofnunar (http://www.nams.is/).

Bjartey  Sig.Bjartey Sigurðardóttir, talmeinafræðingur á Skólaskrifstofu Hafnarfjarðar

Deila þessari færslu:

Auglýsing / MLH

Nýjustu fréttir

Hvað viltu finna?

Sjá allar niðurstöður