Tökum fagnandi á móti fjölbreytileikanum

Tökum fagnandi á móti fjölbreytileikanum

Samfélagið okkar hefur tekið mjög örum breytingum á mörgum sviðum á undanförnum árum og áratugum. Það er sama hvort við lítum til tækniþróunnar eða fjölbreytileika mannlífsins. Við erum alltaf að aðlaga okkur að nýjum degi þar sem við stöndum frammi fyrir nýjum áskorunum og tækifærum. Því er mikilvægt fyrir okkur að móta umburðarlynt samfélag þar sem við tökum fagnandi á móti fjölbreytileikanum.

Hafnarfjörður til fyrirmyndar í fjölmenningu

Fyrir kosningarnar til sveitarstjórnar í maí á síðasta ári lagði Framsóknarflokkurinn í Hafnarfirði fram skýra og metnaðarfulla áætlun í málefnum innflytjenda, sem bar heitið Hafnarfjörður til fyrirmyndar í fjölmenningu. Þar lögðum við ríka áherslu á að Hafnarfjörður myndi fara í heildstæða stefnumótun í málefnum innflytjenda og koma sér upp móttökuáætlun fyrir innflytjendur. Þar væri markmiðið að styðja við virka samfélagslega þátttöku fjölskyldna og einstaklinga af erlendum uppruna með góðu aðgengi að upplýsingum og þeirri þjónustu sem Hafnarfjarðarbær veitir íbúum sínum strax við upphaf búsetu á Íslandi. Einnig viljum við sjá bæjarstjórn Hafnarfjarðar koma sér saman um að setja á fót fjölmenningarráð sem hefði það hlutverk að skipuleggja grasrótarstarf innflytjenda, veita bæjarstjórn og öðrum starfsmönnum bæjarfélagsins, sem koma með einhverjum hætti að málefnum innflytjenda, upplýsingar, ráðgjöf og aðhald. Við teljum einnig mjög mikilvægt að efla fjölmenningarfræðslu í hafnfirskum skólum þar sem markmiðið á að vera að auka víðsýni og fagna fjölbreytileikanum.

Góðar fyrirmyndir í öðrum sveitarfélögum

Sem betur fer er ekki alltaf nauðsynlegt að finna upp hjólið. Okkur hættir því miður of oft til að falla í þá gryfju í stað þess að horfa til þeirra verkefna sem hafa gefið góða reynslu. Alþjóðastofan á Akureyri er einmitt dæmi um slíkt verkefni. Hún var sett á laggirnar árið 2002 og er rekin af Akureyrarkaupstað ásamt því að eiga í samstarfi við fjölda stofnana á Akureyri sem og á landsvísu. Alþjóðastofan hefur margvíslegu hlutverki að gegna og má þar meðal annars nefna miðlun upplýsinga til innflytjenda um réttindi þeirra og skyldur, fræðslu um þjónustu sveitarfélaga, íslenskukennslu, túlka og þýðingarþjónustu og margt fleira. Einnig má nefna árangur Reykjavíkurborgar þar sem fjölmenningarráð Reykjavíkur hefur þótt gefa góða raun og vakið mikla athygli.

Að lokum

Margt gott hefur verið gert í málaflokknum hér í Hafnarfirði en við getum alltaf gert betur. Tökum okkur saman í því verkefni að gera samfélagið okkar betra fyrir alla með því að nýta þann mikla mannauð sem felst í innflytjendum og fjölmenningarsamfélaginu almennt. Fleiri hamingjusamir og virkir íbúar munu skila sér í meiri ágóða fyrir samfélagið okkar hér í Hafnarfirði.

Ágúst Bjarni Garðarsson
Oddviti Framsóknarflokksins í Hafnarfirði
Sigurjón Norberg Kjærnested
Varaþingmaður og formaður innflytjendaráðs

Deila þessari færslu:

Auglýsing / MLH

Nýjustu fréttir

Hvað viltu finna?

Sjá allar niðurstöður