Tómstundir fyrir alla

Tómstundir fyrir alla

ari myndMikilvægi þess að börn og ungmenni taki þátt í skipulögðu tómstunda- og æskulýðsstarfi hefur fyrir margra hluta sakir sjaldan verið meiri en nú. Ég held að margir geri sér ekki grein fyrir því hversu mikilvæg tómstundaiðkun er fyrir börn og ungmenni. Tómstundir hafa forvarnargildi og efla félagslega og vitsmunalega hæfni barna og ungmenna. Forvarnargildi tómstunda felst m.a. í því að börn og ungmenni, sem stunda þær reglulega, eru virkari í daglegum störfum og þeim líður almennt betur.  Það skiptir miklu máli að börn og unglingar nýti frímtíma sinn vel enda eru unglingsárin mjög viðkvæmt skeið og þátttaka í skipulögðu tómstundastarfi er til þess fallin að koma í veg fyrir áhættuhegðun. Einnig sýna rannsóknir fram á að glæpatíðni er minni hjá þeim unglingum sem stunda skipulagt tómstundastarf.

 

Ástæða er til að huga sérstaklega að einum hópi í þessu sambandi. Það eru innflytjendur, en þeim hefur fjölgað mikið á síðustu árum hér á landi. Það virðist því miður vera þannig að ungir innflytjendur á Íslandi taka ekki mikinn þátt í skipulögðu tómstunda- og æskulýðsstarfi.  Margt spilar þar inn í. Það sem helst hindrar þátttöku þeirra er menningarlegur munur og sú staðreynd að foreldrar þeirra eða forráðamenn þekkja lítið sem ekkert til þeirrar fjölbreyttu starfsemi sem hér er í boði á þessu sviði. Einnig hefur fjárhagsleg staða, einkum með tilliti til þátttöku í íþróttastarfi, og félagslegt tengslanet áhrif á þátttöku. Vegna þessa er nauðsynlegt að bæta upplýsingaflæði til þessara barna og aðstandenda þeirra með einum eða öðrum hætti. Vegna tungumálaörðugleika getur verið erfitt að miðla upplýsingum til þeirra. Best væri að þarna kæmi til samvinna á milli skóla og félagsmiðstöðva og annara aðila sem sinna tómstundastarfi. Skólarnir hefðu þar ákveðið frumkvæði í því skyni að ná til sem flestra, en nytu til þess dyggrar aðstoðar frá starfsmönnum félagsmiðstöðva og öðrum sem hafa æskulýðsstarf með höndum. Í þessu sambandi er æskilegt að fyrir liggi bæklingar á erlendum tungumálum þar sem helstu upplýsingum er komið á framfæri. Að mínu mati er í öllu falli ljóst að það er forgangsatriði að kynna þessum tiltekna hópi landsmanna þá þýðingamiklu starfsemi í þágu barna og ungmenna sem við bjóðum upp á og að það sé gert með markvissum hætti.  Það segir sig sjálft að fjölmargt annað þarf til að koma til að þátttaka þessara barna í tómstunda- og æskulýðsstarfi aukist.  Þetta er þó þýðingamikið byrjunarskref og forsenda þess að við náum því æskilega markmiði.

Ari Magnús Þorgeirsson,

nemi í tómstunda og félagsmálafræðum

 

Deila þessari færslu:

Eignaumsjon_vefur_hausverk_karl

Nýjustu fréttir

Hvað viltu finna?

Sjá allar niðurstöður